Hvítabjörn, Líbanon og sígarettusmygl rafrettukónga
Spegillinn - A podcast by RÚV
Categories:
Fyrsti hvítabjörninn sem gengið hefur á land síðan 2016 var felldur í fjörunni á Höfðaströnd í Jökulfjörðum skömmu fyrir klukkan fjögur í dag. Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir dýrið hafa verið aflífað eins snyrtilega og hægt var en vill ekki gefa upp hverjir það voru sem felldu björnin en bæði lögreglumenn frá lögreglunni á Vestfjörðum og séraðgerðardeild Landhelgisgæslunnar voru á staðnum, lögreglumennirnir á björgunarbátnum Kobba Lák en sérðagerðardeildin um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Freyr Gígja Gunnarsson ræddi við Sigrúnu Ágústsdóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar, um verklagið sem er viðhaft þegar hvítabjörn gengur á land á Íslandi. Á fjórða tug létust og á fjórða þúsund særðust, þar af eru nær þrjú hundruð með lífshættulega áverka, þegar þúsundir símboða og talstöðva voru sprengdar í loft upp í Líbanon í gær og fyrradag. Talið er að litlu magni af mjög öflugu sprengiefni hafi verið komið fyrir í tækjunum á einhverju stigi framleiðslunnar, og sprengibúnaðurinn svo virkjaður með því að senda boð í tækin. Allt þykir benda til þess að Ísraelar hafi verið að verki, nánar tiltekið ísraelska leyniþjónustan Mossad. Vesturlandabúar búast flestir við því að allt verði nú vitlaust í herbúðum Hezbollah, sem hyggi á skjótar og grimmilegar hefndir. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur, sem þekkir vel til í Líbanon, segir það misskilning. Ævar Örn Jósepsson ræðir við hana. Tveir karlmenn, sem báðir hafa hagnast vel á rafrettusölu til Íslendinga, hafa verið ákærðir fyrir eitt mesta sígarettusvindl Íslandssögunnar ásamt starfsmanni flutningafyrirtækis. Á árunum 2015 til 2018 eru athafnamennirnir tveir sagðir hafa flutt til landsins rúmlega 125 þúsund karton af sígarettum í gegnum félag án þess að greitt væri tóbaksgjald af vörunum upp á rúmlega 740 milljónir. Freyr Gígja Gunnarsson segir frá. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred