Engin samræming er í hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum
Þetta helst - A podcast by RÚV
Categories:
Engin lög eða reglur gilda um það að hagsmunaskráning kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum sé birt opinberlega. Sveitarfélögum er því í sjálfsvald sett hvort þau krefja kjörna fulltrúa um slíka hagsmunaskráningu eða ekki. Í þættinum var fyrir skömmu fjallað um það formaður bæjarráðs í sveitarfélaginu Ölfusi, Grétar Ingi Erlendsson, hefði vikið af fundi bæjarrstjórnar þar sem teknar voru ákvarðanir sem snertu fyrirtæki sem hann og konan hans eru stórir hluthafar í. Í ljós kom að fulltrúar minnihlutans í sveitarstjórninni vissu ekki að hann væri hluthafi í þessu fyrirtæki sem ætlar að byggja 80 til 95 íbúðir í sveitarfélaginu. Í kjölfarið á þessu máli sendi Þetta helst spurningar um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa til margra sveitarstjórna á suðvesturhorninu. Í ljósi kom að sum sveitarfélög eru ekki með neinar reglur um hagsmunaskráningu á meðan önnur halda skrá yfir þessa hagsmuni en birta hana ekki opinberlega. Sum sveitarfélög, til dæmis Reykjavíkurborg og Hveragerði, halda þessa hagsmunaskrá og birta hana opinberlega. Í þættinum í dag er þetta mál rætt við Björn Inga Óskarsson, lögfræðing í innviðaráðuneytinu, og Evu Marín Hlynsdóttur, sérfræðing í opinberri stjórnsýslu. Rósa Guðbjartsóttir, bæjarstjóri í Hafnarfjarðarbæ, segir einnig frá því af hverju sveitarfélagið birtir þessa hagsmunaskráningu.